Skip to main content
search

Dekkjasalan ehf. veitir eingöngu föstum viðskiptavinum sínum  þjónustu með umboðssölu á notuðum dekkjum og felgum. Umboðssalan er háð skilyrðum bæði hvað varðar gæði, aldur ásamt lagerstöðu hverju sinni.

Töluvert regluverk fylgir því að meðhöndla eigur annarra og biðjum við viðskiptavini að kynna sér vel eftirfarandi skilmála eins og þeir koma fram á umboðssölusamningi.

Samkvæmt 1. mgr. 10. laga nr. 50/1988 er skattaðila, sem móttekur notað lausafé frá einstaklingi utan rekstrar til umboðssölu, heimilt að miða skattverð við söluþóknun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Söluandvirði vörunnar að frádregnum umboðslaunum og vsk. leggst inn á bankareikning eiganda vörunnar 10 virkum dögum eftir að sala fer fram og eru öll gögn sem viðkoma þessum viðskiptum send á tölvupóstfang eiganda vörunnar.

Umboðsaðili skuldbindur sig að hafa vöruna í umboðssölu í allt að 8 vikur og auglýsa hana á heimasíðu sinni dekkjasalan.is, ásamt því að vera með hana til sýnis á meðan samningstíma stendur.

Seljist varan ekki innan 8 vikna samningstíma skal umboðsaðili tilkynna eiganda með tölvupósti um endalok samnings þessa og eigandi vörunnar skal sækja vöruna eða gera aðrar ráðstafanir í samráði við umboðsaðila.

Verði varan ekki sótt innan 10 virkra daga frá dagsetningu tölvupósts telst Dekkjasalan ehf. vera eigandi vörunnar og getur ráðstafað henni að vild.

Eigandi getur ekki rift samningi þessum á meðan samningstíma stendur en óski hann að taka vöruna úr umboðssölu skal hann greiða 20% af áætluðu söluandvirði vörunnar að viðbættum 24% Vsk.

Samkvæmt 5.tl. 10. gr. a. laga nr. 50/1988 á að koma fram á sölureikningi skattaðila til kaupanda að skattaðili sé ekki eigandi hins selda lausafjár (umboðssöluvara) og ábyrgist ekki eiginleika söluhlutar gagnvart kaupanda.

Umboðsaðili ber því enga ábyrgð á göllum sem kunna að koma fram né skemmdum sem varan kann að verða fyrir. Komi gallar fram í söluferli umboðsaðila skal hann tafarlaust tilkynna eiganda vörunnar þess efnis og er eiganda þá skylt að sækja vöruna eða gera aðrar viðeigandi ráðstafanir í samráði við umboðsaðila.

Vörur í vöruhúsi eru á ábyrgð eiganda og er eigendum vara bent á að kynna sér sínar heimilistryggingar hvað varðar lausafjármuni.

Samkvæmt 1.tl. 10. gr. a. laga nr. 50/1988 þarf eigandi vöru að lýsa því yfir að um notað lausafé sé að ræða og að sala þess sé ekki liður í atvinnustarfsemi eða sjálfstæðri starfsemi.

Close Menu